Aðeins um lús
Lús er hrifin af börnum – og fullorðnum líka. Reyndar er lúsin hrifin af okkur flestum og því hafa margar barnafjölskyldur fengið til sín þennan hvimleiða gest.
Lús fer ekki í manngreinarálit. Henni er nokk sama hversu hreint hárið er. Hins vegar skiptir lengd hársins máli, því lengra hár, því meiri líkur eru á smiti. Þess vegna fá fleiri stúlkur en drengir lús.
Finnist lús í hári er mikilvægt að hefja meðhöndlun sem fyrst því lúsin fjölgar sér hratt. Kvenkyns lús verpir 3-5 eggjum á dag og úr þeim klekst unglús eftir 7 daga.
Oft uppgötvast höfuðlús vegna kláða, en alls ekki alltaf. Lús getur verið í hári án þess að kláða verði vart. Kembið því reglulega með fíntenntum kambi, helst vikulega.
Hvernig smitast lús?
Lús smitast ekki með fatnaði, húfum, mjúkdýrum eða sængurfötum. Lúsin lifir í hársverðinum og eingöngu þar. Í hársverðinum er hlýtt og þar nærist lúsin á blóði. Lús skríður, en hvorki hoppar né flýgur.
Lús smitast eingöngu með því að skríða á milli tveggja kolla sem liggja saman. Því er algengt að börn smitist þegar þau leika við önnur börn og lúsin berist þannig inn á heimilið.
Ekki er þörf á að frysta sængurföt eða leikföng. Lús sem dettur úr hári er dauð eða mjög veikburða.
Ekki er ráðlegt að deila hárburstum og hárgreiðum ef lús er að ganga og mikilvægt er að þvo eða frysta bursta og greiður ef lús hefur fundist.